30.10.05

Lofum þessu endilega að hækjast...


Sælir piltar!

Mér finnst í góðu lagi að láta þetta hækjast á netinu. Við skrifum þarna inn þegar vel liggur á okkur og höfum þörf fyrir að kommjúnikera. Stundum hefur maður tíma til þess að setjast niður - stundum ekki. Ég hef til dæmis ekki haft mikinn tíma aflögu að undanförnu - margt fyrirliggjandi í vinnunni (þess vegna er ég að vinna í dag - á sunnudegi) og síðan var ég í burtu um síðustu helgi - altso í Madríd. Huggleg helgarferð með vinnunni. Hin snotrasta borg - hef þó séð þar fallegri. En skemmtilegast var þó að berja augum hina frábæru list sem þarna er að sjá í listasöfnunum - Goya, Míró, Picasso o.fl. Helv... gaman!

Læt með fylgja mynd sem ég tók rétt áðan - kl. 14.45 að ísl. tíma - út um gluggann hérna í vinnunni. Tekin í suður í átt að gamla Samkomuhúsinu. Ansi vetrarlegt - finnst ykkur ekki? Hér hefur snjóað duglega síðustu dægur og í dag er mikil snjókoma. En það er nú víst kominn vetur samkvæmt dagatalinu íslenska og því sennilega fátt við þessu að segja.

kv. óþh

28.10.05

ha?

jæja drengir !
rúm vika - næstum 14 dagar frá síðasta vitræna innskoti... (takk óskar!)
Kiddi og Simmi hafa varla/alls ekki virt þetta viðlits (takk? - æðislegir félagar) - en hinir 3 hafa krotað sitt hvað og MEST GOTT - alla vega hinir tveir!
En þetta er að mínu mati varla nóg...og ég held að möguleikarnir séu eftirfarandi :

1. slátrum þessu strax - og gleymum þessu (í skömm) og kannski hvor öðrum = sem sé engin þörf á þessu.

2. opnum þetta fyrir alla sem vilja blaðra og blogga og sjáum til hvort þetta eigi einhvern séns. Ekkert vambara hér - klíkan lifði ekki af og hefur ekkert að segja hvor öðrum.; sem sé nokkurvegin sama konklusion og í pkt 1.

3. leyfum þessu að lifa á hækjunum og upp á náð viðstaddra =skrif eftir hentugleikum á ca.mánaðarfresti max! Svo fer kannski einhver inn og skrifar eitthvert komment á innlegg ... comon!

4. gera eitthvað í þessu - annað en það sem er í gangi hér. sem sé nota þennan blogg.
(at the moment; Dálítið á brattann - ekki satt? )


Hvað segið þið? 1 -2- 3- 4 ? - og hvursu langan tíma þurfið þið elskudnar.... svona "to make up your mind's" - eigum við að segja tylft daga eða fjórtán....?

Ha?

20.10.05

þetta verðið þið að prófa....

Farið á www.google.dk Skrifið síðan “failure” í leitarstrenginn. Smellið svo á “Jeg føler mig heldig” eða "I'm feeing lucky takkan".
Góða skemmtun.

14.10.05

...vinnsla hvað???!!!

Í þessu starfi kemur margt skrítið hér inn á borðið. Meðal annars vinn ég dulítið fyrir einn af stærstu lífeyrissjóðum landsins. Hef komist að því að lífeyrissjóðageirinn er búinn að koma sér upp sérstöku tungumáli sem enginn annar skilur nema þeir sem lifa og hrærast í heimi lífeyrisiðgjalda. Hvað segið þið til dæmis um eftirfarandi texta í bréfi sem umræddur lífeyrissjóður hyggst senda sjóðfélögunum sínum bráðlega:
"Áður fengust sömu réttindi fyrir sama iðgjald alla starfsævina (jöfn réttindaávinnsla), en nú hefur verið tekin upp aldurstengd réttindaávinnsla. Þar ræðst innvinnsla réttinda af aldrei greiðandans, er mest fyrst og minnkar með hækkandi aldri." Og síðar segir: "Hafir þú ekki samband við sjóðinn, lítur ... svo á að þú sért sáttur við aldurstengdu ávinnsluna og hafir ekki áhuga á að nýta þér réttinn til að greiða í jafnri ávinnslu. Innvinnslan verður þá aldurstengd."

Svona er sem sagt íslenskt lífeyrissjóðamál. Er nema von að Pétri og Páli fallist hendur? Góðar stundir.

Sjálfstæðismenn allra landa - Sameinist!


Þið verðið nú að fyrirgefa mér strákar mínir, en mér finnst vel við hæfi að birta nú mynd af foringjanum á blogginu - sérstaklega þegar tekið er mið af að nú er farsælu forystutímabili hans í flokknum - og til heilla landi og þjóð - lokið. Við eigum svo eftir að sjá hvernig flokknum ríður af undir forystu Geirs H Haarde og nýs varaforMANNS. takið eftir ; Ekki varaKVENNMANNS!
Ég biðst að sjálfsögðu velvirðingar á að nota Bloggið til að halda uppi pólitískum áróðri af þessum toga - jafn skemmtilegt og það þó er - og leyfi ég mér að vitna í orð kellingarinnar sem er í framboði á móti Stjána bróðir: "...það er sjálfstæðistaugin sem titrar og tikkar inní okkur öllum..." Þar rataðist henni rétt orð á munn á Rás2 í morgun...
Kjósið nú rétt!

13.10.05

Øresundsvisan- javist

Svona var umhorfs í Nýhöfn í gær skömmu eftir hádegi. Engir fellibyljir höfðu þá gengið yfir höfuðborg Danmerkur og fátt var um jarðskjálfta.
Ég var að spyrja Hjöra hvort hann væri með hátalara við tölvuna sína vegna þess að ég vissi af ágætis "folkevise på skandinavisk" - en eftir að hafa farið í gegn um Nýhöfn í gær datt mér í hug að þið hefðuð líklega allir gott af smáskandinavíuskammti. Værsågod...
http://www.dr.dk/skum/_arkiv/angora/angora_2_20_oresundsvisan.asx
og ef ykkur grípur löngun til að syngja með er tekstinn hér:
http://www.dr.dk/skum/angora/tekst_oresundsvisan.asp Posted by Picasa

12.10.05

ekki kannski varnarliðið en leitarvél samt

Þetta er kannski mest fyrir Ásgeir fyrst hann smellti inn mynd af dönskum glæpon á blogsíðuna. Ég fór á google leitarvélina með fyrirspurn um 'danske kriminale' og fékk 113 svör. Svo leitaði ég að kynlífi í Japan (bara svona 'sex, Japan') og fékk 28 milljón 400 þúsund tengsla. Síðan beisbol, hornabolta, og fékk 148 milljón hlekki eða tengsla eða hvað þetta nú heitir. Ég held það liggi ljóst fyrir að íþróttir slái öðru við, og að allir glæponar danaveldis hljóti bara að vera alltsaman svíar og færeyingar.

10.10.05

myndlist handan landamæra?


Allir kannast við norska málverkið Skriget. Færri þekkja sænsk drög að þeirri mynd, sem upphaflega var kölluð Ekki toga í spottann. Sú mynd varð aldrei að svokölluðu málverki heldur bara að plakati fyrir ólympíuleika í Stokkhólmi. Ekki veit ég hvort nokkur man þá keppni, það var nokkru fyrir gullöld íslensks íþróttafólks, Völulaust sensd.

skúlp og aðrir túrar


Hér er einn sem er til í tuskið. Eitthvað er hann samt málum blandinn, en amk myndu lundúnabúar örugglega sætta sig við hann, Þeir eru eitthvað fúlir margir yfir nýrri höggmynd, marmara af óléttleikakonu, vilja frekar léttleikamenn sem drápu Indverja og annan lýð sem vildi standa í vegi fyrir útbreiðslu breska heimsveldisins. Kannski eru þetta allt vangaveltur um hnignun heimsvelda. En sensd, gjöriðisvo vel, Hvell-geiri

8.10.05

til í tuskið

Ég vil endilega fá fleiri fréttir af karlakórum sem eru til í tuskið. Á þessum erfiðu tímum jarðskjálfta, flóða, fellibylja, og rapptónlistar er fátt jafn róandi en fréttamynd af karlmönnum sem fara í vinnugallann og eru til í koma lundúnabúum í stuð. En auðvitað geta kórkarlar ekkert við það ráðið ef tuskið er ekki til í þá. Jeg bíð spenntur eftir næstu frétt, sé fyrir mér möguleika á að láta syngja yfir gjaldþrota fyrirtækjum: Slipp- traust og stöðin góð, stendur ekkjá neinum fæti lengur, þetta fer á hausinn einsog gengur, osfrv.

5.10.05

Traust og gott fyrirtæki.....

Í gærkvöld voru umræður á hinu háa Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra. Árlegt fyrirbæri og lítt skemmtilegt. En þó kemur fyrir að eitthvað afbrigðilegt á sér stað í þessum umræðum - annað hvort fyndin ummæli eða eitthvað annað. Í umræðunum í gærkvöld brá svo við að tveir norðanmenn fóru öðrum mönnum meira á kostum - eða þannig . Annar fyrir hátterni - hinn fyrir ummæli.
Hlynur Hallsson, vinstri-græningi frá Akureyri, sem nú situr á löggjafarsamkundunni sem varaþingmaður, sté í pontu án bindis og uppskar athugasemd þingforseta. Fékk þó að ljúka máli sínu án bindis.
Halldór nokkur Blöndal átti komment kvöldsins. Þannig er að Slippstöðin á Akureyri var nú í vikunni (í gær eða fyrradag) úrskurðuð gjaldþrota, sem er auðvitað hið versta mál. Málið var að sjálfsögðu ofarlega í huga þingmanna kjördæmisins í gærkvöld. Eftirfarandi datt út úr Blöndal:

"Það er alveg rétt og ég tek undir það sem a.m.k. tveir þingmenn hafa sagt í kvöld, að það voru hörmuleg tíðindi að Slippstöðin skyldi hafa verið lýst gjaldþrota. Hvorki fleiri né færri en 100 manns fóru á atvinnuleysisskrá í dag eins og sagt var frá í kvöldfréttum. En við skulum líka hafa í huga að þetta er traust og gott fyrirtæki, að fjárfestar eru reiðubúnir til að taka upp þráðinn og bæði bæjaryfirvöld og hafnarstjórn hafa lýst sig reiðubúin til samstarfs. Þess mun því að vænta að Slippstöðin geti hafið starfsemi að nýju mjög bráðlega."

Þannig er nú það. Fyrirtæki sem búið er að lýsa gjaldþrota er sumsé "traust og gott fyrirtæki". Ég hef að vísu aldrei verið góður í hagfræði, en samt....

Góðar stundir,

óþh



"

Orðabók íslenskra sauðfjárbænda


Sælir!

Margt rekur á manns fjörur af netinu. Neðangreint datt inn í pósthólfið mitt í dag undir yfirskriftinni "Orðabók íslenskra sauðfjárbænda".

Handbært fé frá rekstri: Kindur sem menn hafa gefist upp á að reka og ákveðið að bera á höndum sér
Að bera fé: Afklæða kind
Aflafé: Kindur sem stunda veiðiskap
Áhættufé: Fífldjarfar sauðkindur
Eigið fé: Kindur sem maður á sjálfur
Fégirnd: Afbrigðileg kynhneygð (Að girnast sauðfé)
Fégræðgi: Að vera einstaklega sólginn í sauðaket
Féhirðir: Smali
Félag: Lag sem samið er um sauðfé
Félagi: Sá sem leggur lag sitt við sauðfé
Félegur: Eins og sauður
Féleysi: Þegar skorið hefur verið niður vegna riðuveiki
Fjárdráttur: Samræði við kind
Fjárhagur: Einhver sem er afar laginn við sauðfé
Fjárhirslur: Geymslur fyrir sauðfé
Fjárlög: Mörg lög sem samin eru um sauðfé
Fjármagn: Þegar margar ær koma saman
Fjármál: Tungumál sauðkinda/jarm
Fjármálaráðherra: Yfirsmali
Fjármunir: Lausamunir í eigu sauðkinda
Fjárnám: Skóli fyrir kindur
Fjárplógsstarfsemi: Jarðyrkja þar sem sauðfé er beytt fyrir plóg
Fjársöfnun: Smalamennska
Fjárútlát: Þegar ærnar eru settar út á vorin
Fjárvarsla: Það að geyma kindur
Fjárveitingar: Þegar boðið er upp á sauðket í matarboðum
Fjáröflun: Smalamennska
Fundið fé: Kindur sem búið er að smala
Glatað fé: Fé sem ekki hefur komið aftur af fjalli
Grímsá: Kind í eigu Gríms
Hlutafé: Súpukjöt
Langá: Einstaklega löng kind
Lausafé: Kindur sem eru lausar á afréttinum
Norðurá: Kind að norðan
Opinbert fé: Fé í eigu ríkisins
Sauðburður: Þegar handbært fé er borið að á milli staða
Sparifé: Kindur sem ekki eru notaðar hversdags
Stofnfé: Fyrstu kindurnar sem maður eignast
Tryggingafé: Öruggt sauðfé
Veltufé: Afvelta kindur
Þjórfé: Drykkfelldar ær
Þverá: Þrjósk kind

Góðar stundir!
óþh

Veiðar geta verið varasamar....

Ef ég man rétt styttist í veiðitímann hjá ápj í Danaveldi og því er ástæða til að hafa uppi öll hugsanleg varnaðarorð. Veiðar geta verið varasamar - sbr. meðfylgjandi frétt sem birtist á vef Verdens Gang í Noregi í dag:

"En svensk jeger mistet bevisstheten da han ble truffet i hodet av en canadagås. Fuglen var i fritt fall etter å ha blitt truffet av en kule i vel 20 meters høyde. -Den ville vel hevne seg, sier jeger Ulf Ilbäck til avisa Extra Östergötland. Ulf og sønnen Carl Johan hadde plassert seg langs en elv da jakten brått tok en overraskende vending. Ulf hørte et skudd fra sønnens hagle, og ventet spent på om flere gjess ville komme på skuddhold. -Plutselig så jeg i øyekroken at noe kom farende, og rakk bare å snu hodet før jeg ble truffet i nakken. Deretter ble det svart, forteller jegeren. -Jeg hadde maksimal flaks i uflaksen. Hadde gåsen fått inn et bedre treff kunne den ha brukket nakken min, sier Ulf til avisa. Til tross for ulykken kunne både far og sønn ta seg hjem for egen maskin. Men i to dager lå Ulf til sengs med smertestillende tabletter. -Jeg var nødt til å sykemelde meg. Historien vakte en del latter på jobben, det kan jeg love, sier jegeren. Han mener den uvanlige jaktepisoden i august ikke har gjort ham skuddredd, men sier han kanskje burde skaffe seg hjelm før elgjakten begynner."

Sennilega lítið um gæsaveiðar í Danmörku. En annar fugl, ef ég man rétt, er eftirsóknarverður - svo og dádýr.

Góðar stundir

4.10.05

DV alltaf við saga heygarðshornið


Á forsíðu DV í dag stendur í dag....
"Karlakórinn Fóstbræður sviknir um tónleika í London.
Dræm miðasala sögð vera ástæðan
"
Annað hvort DV er bara hreinlega að ljúga þessu (sem er sennilegt) - eða bretar bara með jafnhelvíti léglegan tónlistarsmekk og lengi hefur verið haldið fram um þá. Þeir vilja kannski frekar fara á tónleika með Clapton, Macca eða Stóns!
Læt hér fylgja en langa mynd sem tekin er af Jóhannesi Long. Mikið eru þeir nú alltaf andskoti vel til fara strákarnir...

Nú liggja Danir í'ðí....

Hvernig er það - eru Íslendingar á góðri leið með að að yfirtaka atvinnurekstur í Danmörku? Fyrst var það Magasin, síðan Illum, þá Sterling og nú eru frónskir kaupsýslumenn sagðir hafa áhuga á fyrirtækjum á Jótlandi - sbr. þessa frétt á Mbl.is nú í morgunsárið

"Danskir fjölmiðlar segja í dag, að íslenskir fjárfestar skoði nú hugsanleg fyrirtækjakaup á norðurhluta Jótlands. Blaðið Idag - Industriens Dagblad hefur eftir Karl Otto Nicolajsen hjá atvinnumálaráði Álaborgar, að viðræður standi yfir milli ráðsins og íslenskra fjárfesta og íslensk stjórnvöld komi einnig að þeim viðræðum.
„Þetta snýst um þrjá banka og nokkur fyrirtæki, sem vilja gjarnan fjárfesta á svæðinu. Við viljum ekki upplýsa nánar um innihald þessara viðræðna en við vonum, að þær geti leitt til þess að störf skapist fyrir 150-200 manns," segir Nicolajsen.
Nokkur íslensk fyrirtæki eru í Álaborg, þar á meðal Larsen Seafood. Segist Nicolajsen að áhugi Íslendinga á svæðinu veki einnig áhuga danskra fjárfesta sem vilji veðja á norður-jóska markaðinn, hugsanlega í samvinnu við Íslendinga.
Nokkrum stórum fyrirtækjum á svæðinu hefur verið lokað að undanförnu, m.a. Flextronics í Pandrup og Danish Crown í Hjørring. "


Íslendingar eru sumsé ötulir við að borga fyrir allt myglaða kornið um árið og kenna dönskum hvar Davíð keypti ölið - eða þannig.....

3.10.05

kornframleiðsla á túndrunni...


Norðurslóð var að koma inn úr dyrunum. Það er alltaf gaman. Reyndar þekki ég varla neinn á myndum lengur, en Tjarnartíðindin standa alltaf fyrir sínu - sem klettur í hafi norlenskrar fjölmiðlunar. Gat ekki sleppt því að scanna inn handa ykkur forsíðumyndina - af kornþreskivél sem virðist vera notuð í snjómokstur. Þarna eru menn að rækta korn norður undir heimskautsbaug. Og svolítið hissa og svekktir yfir að lenda í snjókomu í septemberlok. Upp á hverju ætli þeir finni næst. Appelsínusaft úr Jarðbrúarappelsínum. Eplapie fra Atlastöðum?
Á sömu forsíðu segir af skíðagaurunum á Dalvík komnir á fullt í að byggja dæluhús fyrir "snjóframleiðslukerfi". Framkvæmdir ganga skv. áætlun og það eina sem virðist geta komið í veg fyrir að Dalvíkingar geti farið að framleiða snjó er.... já hugsið ykkur... líkleg snjókoma!
Djísús Kræst - eina skýringin á þessu hýtur að vera að það búi ekkert nema aðkomufólk á staðnum lengur.
Góðar stundir.